Íslendingabók -

Heimildir

Við gerð Íslendingabókar hefur verið stuðst við margs konar heimildir, útgefin sem og óútgefin rit. Grundvallarheimildir Íslendingabókar eru þó kirkjubækur, sóknarmanntöl og manntöl. Skráning þessara gagna og varðveisla hefur gert okkur kleift að setja saman gagnagrunn sem fáar þjóðir geta leikið eftir. Manntalið 1703 er til að mynda einstök heimild og eitt elsta manntal í heimi sem nær yfir íbúa heillar þjóðar þar sem getið er um nafn, aldur, stöðu og búsetu þeirra. Önnur manntöl á 18. öld voru skráð árin 1729, 1735, 1753 og 1762. Það var svo árið 1801 sem samræmd manntalsskráning hófst í danska konungsríkinu og naut Ísland góðs af því. Frá árinu 1835 voru manntöl skráð á fimm ára fresti og á tíu ára fresti frá árinu 1860. Í kirkjubækur færðu prestar inn upplýsingar um fæðingar, skírnir, fermingar, giftingar, dauðsföll og flutninga fólks í og úr sóknum. Hér á landi hófst skráning kirkjubóka með reglubundnum hætti á árunum 1783-1784 en þó eru til nokkrar kirkjubækur fyrir þann tíma og jafnvel einhverjar frá því fyrir 1700.

Tímabilið frá landnámi og fram að fyrsta manntalinu 1703 er brotakendara þegar kemur að heimildum. Þar er stuðst við ýmis rit eins og Íslendingasögurnar, Landnámabók, Sturlungu, Fornbréfasafnið, Alþingisbækur, Annála 1400-1800, bréfabækur og fleira. Einnig hafa varðveist ýmsar ættartölubækur einstakra manna eins og t.d. Jóns Espólíns og Ólafs Snóksdalíns. Þessar og fleiri heimildir gera okkur kleift að rekja ættir fólks allt aftur til landnáms en því miður ekki allra Íslendinga.

Á seinni tímum eftir að þjóðskrá kom til sögunnar má segja að hún taki við sem mikilvægasta heimildin í Íslendingabók. Þjóðskrá hefur að geyma upplýsingar um fæðingar, dauðsföll, hjúskaparstöðu og búsetu. Þessar upplýsingar eru uppfærðar í Íslendingabók á hverjum virkum degi. Með því að færa kirkjubækur á stafrænt form og á netið hefur Þjóðskjalasafn Íslands auðveldað mjög aðgengi að frumgögnunum. Þess má geta að kirkjubækur eru opnar eftir að 50 ár eru liðin frá síðustu færslu í þær. Á meðan kirkjubækur eru lokaðar reiðum við okkur á þjóðskrá og ábendingar frá notendum sem eru duglegir að senda okkur upplýsingar sem ekki er að finna í þjóðskrá.

Víða er leitað fanga og með auknu aðgengi á netinu er hægt að fletta gömlum og nýjum dagblöðum sem hafa að geyma mikilvægar upplýsingar um afdrif Íslendinga hér á landi og ekki síður erlendis. Á allra síðustu árum hafa gögn eins og manntöl, fæðingarskrár og dánarskrár í Bandaríkjunum og Kanada í auknum mæli verið gerð opinber á netinu en þar má finna upplýsingar um afdrif Íslendinga í Vesturheimi og afkomendur þeirra.

Hægt er að kynna sér þær heimildir sem stuðst er við varðandi skráningu hvers einstaklings í Íslendingabók fyrir neðan nafn viðkomandi og fæðingardag.