Íslendingabók -

Um Íslendingabók

Íslendingabók er heilsteypt skrá á tölvutæku formi yfir ættir nær allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Upphaf hennar má rekja til ársins 1988 þegar Friðrik Skúlason hóf að skrá ættfræðiupplýsingar í ættfræðiforritið Espólín. Vorið 1997 hófu Íslensk erfðagreining og Friðrik Skúlason samstarf um þessar skráningar, meðal annars með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingarnar við erfðafræðirannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar.

Íslendingabók er eini ættfræðigrunnurinn í heiminum sem nær til heillar þjóðar. Í henni er að finna upplýsingar um meira en 95% allra Íslendinga sem uppi hafa verið frá því að fyrsta manntalið var gert á Íslandi árið 1703 og ítarlegar upplýsingar allt aftur til landnáms.

Í Íslendingabók eru upplýsingar um ættir um það bil 860.000 einstaklinga, en það eru nánast allir þeir einstaklingar sem heimildir finnast um og um helmingur þeirra Íslendinga sem búið hafa á Íslandi frá landnámi.

Fjöldi skráðra einstaklinga sem fæddir eru á 20. öld er nú um 410.000 manns og tengingar eru við báða foreldra í 95,5% tilvika. Enn vantar þó upplýsingar um ættir allmargra einstaklinga sem skráðir eru í grunninn og eru þær upplýsingar þegnar með þökkum. Best er að senda okkur ábendingu í gegnum aðgang notenda Íslendingabókar. Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á netfangið islendingabok@islendingabok.is.