Fjölmargar spurningar og athugasemdir hafa borist
Íslendingabók frá því hún var
opnuð almenningi og er sumum þeirra svarað hér
að neðan. Til að senda inn athugasemdir varðandi
einstakling er best að nota hnappinn sem merktur er ATHUGASEMDIR,
ofarlega hægra megin á upplýsingasíðu um
viðkomandi.
Hvernig finn ég aðgangsupplýsingar í netbanka?
"Rangt notandanafn eða lykilorð". Hvað get ég gert?
Get ég fengið aðgangsupplýsingarnar sendar í tölvupósti?
Ég er búinn að týna lykilorðinu mínu. Hvað á ég að gera?
Ég er búsett(ur) erlendis. Hvernig fæ ég aðgang?
Hvað þýðir að ég hafi nú þegar fengið
úthlutað notandanafni og lykilorði.
Hvernig takið þið á ættleiðingarmálum?
Hvers vegna er ég ekki tengd(ur) við pabba minn?
Af hverju get ég ekki bætt við upplýsingum um sjálfan mig?
Af hverju er nafnið mitt vitlaust skráð?
Af hverju vantar hjúskaparstöðu og giftingardag?
Af hverju er ég eða ættmenni mín vitlaust tengd?
Af hverju eru nýskírð börn ekki skráð undir nöfnum?
Af hverju er ekki getið um nákvæman fæðingarstað?
Hvernig finn ég aðgangsupplýsingar í netbanka?
Í heimabönkunum finnast upplýsingar ýmist undir Netyfirlit eða Rafræn skjöl.
Athugið að aðgangsupplýsingar fyrir börn undir 18 ára aldri eru sendar
í heimabanka forráðamanns.
Hér að neðan má sjá dæmi úr nokkrum netbönkum sem sýna hvar
nálgast má aðgangsupplýsingarnar.
Sýnidæmi úr netbanka Íslandsbanka
Sýnidæmi úr netbanka Landsbankans
Sýnidæmi úr netbanka Arion
Fara efst á síðu
Aðgangsupplýsingarnar virka ekki - ég fæ alltaf fram meldinguna:
"Rangt notandanafn eða lykilorð." Hvað get ég gert?
Í fyrsta lagi skal athuga hvort notandanafn og lykilorð hafi verið rétt slegin inn. Athugið að engir
íslenskir stafir eru í notandanafni, sbr. "í", "ú", "ð", og að það er eitt bil á
milli lykilorðanna. Hvort tveggja skal skrifa með lágstöfum.
Einnig gætu stillingar í tölvu notandans verið til vandræða. Hún þarf að heimila
notkun á kökum (e. cookies) Hugsanlega þarf að eyða kökum af vélinni.
Sumar leitarvélar hafa valdið vandræðum í tengslum við Íslendingabók, þvi er ráð
að gæta þess að fara ekki inn á síðuna í gegnum leitarvél en slá í staðinn
slóðina www.islendingabok.is í netfangsreit vafrans.
Hafið í huga að ef aðgangsupplýsingarnar eru slegnar of oft inn vitlaus er lokað fyrir aðganginn í 6 klst.
Ef aðgangsupplýsingarnar virka alls ekki er þrautalendingin sú að sækja um nýjar aðgangsupplýsingar.
Það skal tekið fram að ef sótt er um nýtt lykilorð þarf að bíða eftir nýju bréfi
frá okkur. Einnig er mögulegt að senda póst á
islendingabok@islendingabok.is og láta fylgja með þær aðgangsupplýsingar sem bárust í bréfinu
ásamt kennitölu. Þar sem þetta getur verið seinvirkt ferli, er notendum sérstaklega bent á að skrá
netfang sitt á síðunni "STILLINGAR".
Fara efst á síðu
Get ég fengið
aðgangsupplýsingarnar sendar í
tölvupósti?
Því miður er ekki hægt að fá
aðgangsupplýsingarnar sendar í
tölvupósti, þegar sótt er um í fyrsta
sinn. Hins vegar geta notendur skráð netföng sín
á vefsíðunni eftir að þeir hafa fengið
bréf frá okkur, og þannig tryggt að þeir
geti í framtíðinni fengið ný lykilorð
eða fréttir af Íslendingabók með
tölvupósti. Þetta er hægt á
síðunni "STILLINGAR".
Fara efst á síðu
Ég er búinn að týna lykilorðinu mínu. Hvað á ég að gera?
Ef aðgangsupplýsingar glatast, er ekki um annað að ræða en sækja um að nýju, og bíða
þolinmóð(ur) eftir póstinum.
Þegar notandi hefur tengst Íslendingabók með notendanafni og aðgangsorði, hefur hann möguleika
á að skrá nefang sitt með því að smella á hnappinn “Stillingar” vinstra megin á
vefsíðunni. Þeir notendur sem hafa skráð netfang sitt geta fengið nýtt lykilorð sent með
tölvupósti og því eru allir notendur hvattir til þess að skrá netfang sitt á síðunni.
Fara efst á síðu
Ég er búsett(ur) erlendis. Hvernig fæ ég aðgang?
Útsending notendanafna og lykilorða byggir á heimilisföngum í þjóðskrá
og veldur það nokkrum vandræðum fyrir Íslendinga sem eru búsettir erlendis.
Þeir eiga tvo valmöguleika til að fá aðgang að Íslendingabók:
- Að senda tölvupóst á islendingabok@islendingabok.is og tilnefna einhvern nákominn ættingja +
sem viðtakanda bréfs með notandanafni og lykilorði.
- Að hafa samband við Þjóðskrá og tilnefna s.k. umboðsmann hér á landi.
Það ferli getur þó tekið nokkurn tíma, þar sem Þjóðskrá er
uppfærð mánaðarlega. Í þeim tilfellum sem umsækjandi er búsettur erlendis en með
skráðan umboðsmann á Íslandi í þjóðskrá, eru aðgangsupplýsingarnar
sendar á lögheimili umboðsmannsins.
Fara efst á síðu
Hvað þýðir að
ég hafi nú þegar fengið úthlutað
notandanafni og lykilorði.
Þessi skilaboð koma fram ef notandi sem þegar er
skráður með notandanafn og lykilorð sækir um
aðgang að nýju. Áður en það er gert
eru notendur hvattir til að athuga vel hvort
aðgangsupplýsingarnar eru örugglega rangar sbr. "Rangt notandanafn eða lykilorð".
Hvað get ég gert?
Fara efst á síðu
Hvernig takið þið
á ættleiðingarmálum?
Í Íslendingabók eru einstaklingar tengdir foreldrum sínum eftir bestu fáanlegum heimildum.
Í flestum tilfellum er stuðst við Þjóðskrá, kirkjubækur, manntöl eða
útgefin ættfræðirit. Lang algengast er að ættleiddir einstaklingar séu tengdir kjörforeldrum
sínum. Ef fram koma upplýsingar um að einstaklingur sé ættleiddur, eru tengingar við kjörforeldrana
rofnar en nöfn og fæðingardagar kjörforeldra sett sem athugasemd í texta um einstaklinginn. Ef einnig
finnast upplýsingar um blóðforeldra einstaklingsins, eru þeir tengdir honum í stað kjörforeldranna.
Í sumum tilfellum eru ættleiðingar viðkvæm mál í hugum þeirra sem hlut eiga að
máli. Þess vegna leggja aðstandendur Íslendingabókar áherslu á að bjóða upp
á sveigjanleika í birtingu þessarra upplýsinga á vefnum islendingabok.is, burtséð frá
því hversu aðgengilegar upplýsingar um ættleiðingu geta verið í öðrum heimildum:
- Ættleiddur einstaklingur getur valið um að birtast á vefnum annaðhvort sem barn blóðforeldra sinna,
barn kjörforeldra sinna eða án tenginga við foreldra.
- Ef ættleiddur einstaklingur er tengdur blóðforeldrum sínum, getur hann jafnframt fengið aðgang að
ættum kjörforeldra sinna, sé þess óskað.
Ættleiddi einstaklingurinn ræður því hvernig tengingum við foreldra er háttað skv.
ofanskráðu, en forráðamaður hans, sé einstaklingurinn undir lögaldri. Þó er viðurkennt
að réttur blóðforeldris sem vill ekki tengjast ættleiddu barni sé ávallt sterkari en vilji barnsins til tengingar.
Komi fram óskir um breytingar á tengingum ættleiddra einstaklinga er brugðist við þeim eins fljótt
og hægt er. Besta leiðin til að koma slíkri ósk á framfæri er með því að nýta
hnappinn Athugasemdir á islendingabok.is.
Engir aðrir geta hlutast til um það hvernig ættfærslur ættleiddra einstaklinga birtast, hvorki börn, barnabörn,
makar, systkini eða aðrir ættingjar.
Fara efst á síðu
Hvers vegna er ég ekki
tengd(ur) við pabba minn?
Meginhluti upplýsinga um tengingar milli núlifandi
einstaklinga er fenginn úr Þjóðskrá.
Séu foreldrar barna ekki gift eða í
skráðri sambúð eru börn eingöngu tengd
í Þjóðskrá við þann
einstakling sem þau búa hjá, í flestum
tilvikum móður sína. Þar sem kirkjubækur
eru ekki opnaðar fyrr en a.m.k. 30 árum eftir
fæðingu barna þá höfum við oft ekki
aðgang að upplýsingum um barnsfeður, þar sem
þær eru einfaldlega ekki opinberar. Við þiggjum
upplýsingar um barnsfeður hins vegar með
þökkum, ef hlutaðeigandi kjósa að koma
þeim á framfæri við okkur.
Fara efst á síðu
Af hverju get ég ekki
bætt við upplýsingum um sjálfan mig?
Aðeins eru birtar lágmarksupplýsingar um
núlifandi einstaklinga enda er Íslendingabók fyrst
og fremst ætlað að veita upplýsingar um
ættartengsl. Vera má að síðar meir
verði fólki gefinn kostur á að bæta inn
ítarlegri upplýsingum, en ekkert hefur enn verið
ákveðið um það.
Fara efst á síðu
Af hverju er nafnið mitt vitlaust skráð?
Ritháttur nafna núlifandi einstaklinga er
byggður á rithætti nafna þeirra í
Þjóðskrá, þegar þau voru fyrst
skráð. Hvað flesta varðar er þá um
að ræða þann rithátt sem var í
Þjóðskránni 1994, þegar gögn voru
fyrst sótt í Þjóðskrá. Allir
þeir sem hafa breytt nafni sínu síðan eru
væntanlega rangt nefndir í Íslendingabók.
Einnig er nokkuð algengt að fólk sé ekki
sátt við rithátt nafns síns í
Þjóðskrá, t.d. ef Hagstofan sleppir löngu
millinafni. Nafnasviðið hjá okkur er lengra en
hjá Hagstofunni, þannig að við getum í
flestum tilvikum birt full nöfn. Ekki má gleyma
því að ættfræðingar þeir sem
vinna að Íslendingabók eru bara mannlegir og
það kemur fyrir að einhver hafi ekki hitt á
réttan stað á lyklaborðinu.
Fara efst á síðu
Af hverju vantar hjúskaparstöðu og giftingardag?
Við höfum takmarkaðar upplýsingar um
giftingardaga í hluta tilvika, þar sem þær
liggja ekki á lausu í opinberum gögnum
síðustu 30 ár. Ennfremur er fyrrverandi
sambýlisfólk stundum tengt, en almenna reglan er
sú að slíkt skuli ekki gert nema viðkomandi hafi
eignast börn saman. Fyrrverandi makar eru hins vegar alltaf
skráðir, nema sérstök ástæða
sé til annars.
Fara efst á síðu
Af hverju er ég eða ættmenni mín vitlaust tengd?
Í einhverjum tilvikum eru hreinar og klárar tengingarvillur í grunninum, oftast vegna þess
að villst hefur verið á alnöfnum. Einnig getur verið að stuðst hafi verið við
heimildir sem geyma rangar upplýsingar og eru það þá yfirleitt útgefin rit.
Þá má geta þess að þegar stúlka undir 18 ára aldri sem búsett
er í foreldrahúsum eignast barn, fá barnið, stúlkan og foreldrarnir sama fjölskyldunúmer.
Það hefur í nokkrum tilfellum valdið þvi að barnið er tengt ömmunni en ekki móðurinni.
Þessar villur eru mjög sjaldgæfar en eru alvarlegri en margar aðrar villur þar sem þær leiða
til þess að rangt ættartré er birt. Allar leiðréttingar eru vel þegnar.
Fara efst á síðu
Af hverju eru nýskírð börn ekki skráð undir nöfnum?
Nýfædd börn eru hjá okkur
skráð sem "Drengur" eða
"Stúlka" samkvæmt
Þjóðskrá. Þessar upplýsingar eru
uppfærðar mánaðarlega, en margir foreldrar hafa
sent okkur nýlegar upplýsingar um nöfn barna sinna.
Fara efst á síðu
Af hverju er ekki getið um
nákvæman fæðingarstað?
Fæðingarstaðir núlifandi einstaklinga eru
teknir úr Þjóðskrá, en margir vilja
fá nákvæmari staðsetningu, en ekki bara t.d.
"Fædd í Eyjafjarðarsýslu". Við
viljum enn og aftur ítreka að við þiggjum allar
upplýsingar og leiðréttingar með
þökkum og leitumst við að koma þeim inn
í Íslendingabók eins fljótt og kostur er.
Fara efst á síðu
|